Í Ástralíu finnurðu nánast allt sem þér girnist. Hér er endalaust af gullfallegum ströndum, sörfið er magnað, ómissandi er að kafa eða snorkla í kóralrifinu, þar er einstakt landslag sem innniheldur bæði eyðimerkur og regnskóga og svo er hægt að skíða á veturna! Svo eru ástralar svo frábærir að þeir munu láta þér líða eins og þú viljir aldrei fara heim frá þessari paradís. Ástralía er algjörlega ómissandi á tékklista allra!
Austurströnd Ástralíu - stórborgir og surf
Austurströnd Ástralíu er mjög vinsæl á meðal bakpokaferðalanga, alveg frá Sydney til Cairns. Á þessu stóra svæði er mikið um langar, yfirgefnar strendur þar sem er að finna fullkomnar brimöldur fyrir áhugamenn um sörf. Hér eru einnig miklar partýborgir og hrífandi landslag. Náttúran afhjúpar sitt besta hér, sérstaklega í Queensland í norðri þar sem regnskógar og kóralrif mætast. Á fáum stöðum í heiminum er að finna fallegri hitabeltiseyjar og kóralrif en Whitsunday-eyjar eða kóralrifið mikla (Great Barrier Reef).
Töfrandi Ástralía - The Red Centre
Austurströndin er heillandi, en það er vel þess virði að ferðast hundruði kílómetra til að heimsækja norðurhluta Ástralíu. Í hitabeltishluta norðursins er að finna borgina Darwin þar sem alltaf er heitt og rakt. Aðeins sunnar er svo hinn frábæri Kakadu þjóðgarður með sínum fallegu fossum, gljúfrum og villta dýralífi, t.d. saltvatns krókódílum!
Ef þú ferð svo enn sunnar í hinar óendanlegu óbyggðir Ástralíu, eða hina svokölluðu rauðu miðju, finnurðu dulmagnaða staði eins og hinn 335 metra háa sandstein Uluru (eða Ayers Rock) í Uluru-Kata Tjuta þjóðgarðinum sem er talinn vera stærsti sandsteinn heims og í augum innfæddra er steinninn heilagur. Hann er rauðbleikur en skiptir um lit eftir því hversu hátt sólin er á himninum. Þessi hluti Ástralíu er svo sannarlega töfrandi.
Vestur Ástralía - villt og falleg
Ef þig langar að forðast helstu túristastaðina en á sama tíma upplifa hluta af landinu sem er bæði öðruvísi og einstakur þá mælum við með að þú farir vestur. Vesturströnd Ástralíu er vægast sagt risastór, yfirgefin og villt - mjög villt - spennandi og ótrúlega falleg. Hér finnur þú sumar fallegustu og óspilltustu strendur heims, magnaða kletta og gljúfur og glæsileikinn og kyrrðin er í fullkomnu jafnvægi. Færri ferðalangar heimsækja vestur Ástralíu, en heimamenn taka á móti þeim með opnum örmum.
Lifðu eins og Ástrali
Að ferðast um Ástralíu er eitt, en að eyða nægilega löngum tíma í Ástralíu svo maður virkilega nái að njóta landsins og menningarinnar er allt annað. Það er algjörlega þess virði að dvelja í lengri tíma á sama stað til að kynnast fólkinu, aðlagast lífsstíl heimamanna og eignast nýja vini. Ástralir elska útiveru og alla afþreyingu sem á sér stað undir berum himni - sama hvort það er þeirra ástkæra BBQ með köldum bjór eða aðeins meira krefjandi útivist líkt og surf, krikket eða fótbolti. Borgir eins og Sydney, Melbourne, Canberra (höfuðborg Ástralíu) og Adelaide eru frábærir staðir til að kynnast áströlskum lifnaðarháttum en í Ástralíu er einnig að finna mikinn fjöldia lítilla og heillandi staða sem henta vel fyrir bakpokaferðalanga.
Það er ekki hægt að tala um Ástralíu og Ástrali án þess að minnast á sörf! Þetta er hálfgerð þjóðaríþrótt og sörfmenningin er allsráðandi á Austurströndinni. Ef þú hefur aldrei stigið á brimbretti mælum við með því að læra að sörfa í Ástralíu svo þú getir tekið þátt í fjörinu!