Þó að Bólivía sé eitt af fátækustu löndum Suður-Ameríku þá er það ríkt af litríkri menningu og stórbrotnu landslagi. Gamlir siðir og hefðir eru allsráðandi þar sem innfæddir hafa haldið þeim vel við. Andstæðurnar í landslaginu eru gífurlegar, og þú þarft að hugsa þig vel um áður en þú pakkar í tösku fyrir ferð til Bólivíu.
La Paz
La Paz er oft kölluð höfuðborg Bólivíu því þar eru stjórnvöld landsins staðsett svo hún er einungis stjórnsýslu-höfuðborg (administrative capital), en hin eiginlega höfuðborg er Sucre. La Paz er hinsvegar hæsta stjórnsýslu-höfuðborg heims, en hún er í 4.200 m hæð. La Paz er staðsett í einskonar dæld og er umkringd tilkomumiklum fjöllum. Borgin sjálf lítur í rauninni út eins og risavaxið þorp með öllum sínum þröngu strætum og litríkt klæddu Bólivíubúum sem selja allt mögulegt á götumörkuðum borgarinnar. Heimsókn til þessarar kraftmiklu og einstöku borgar mun seint gleymast!
Hvað er hægt að gera í Bólivíu?
Það er nóg að gera og sjá í Bólivíu! Frægasti staður landsins er eflaust salteyðimörkin í Uyuni. Það er algjört "must" að fara þangað þegar þú heimsækir Bólivíu. Auk þess mælum við með að þú heimsækir Amazon skóginn, farir í flúðasiglingu í Yungas á, skoðir dýralífið í Pantanal og/eða skellir þér í göngu um Cordilleras. Það er gífurlega mikið um fallegar gönguleiðir í Bólivíu svo göngugarpar ættu að njóta sín vel hérna. Ef þig langar í fjallaklifur er best að fara yfir vetrartímann þegar rignir minna.
Ef þú ert alvöru adrenalín fíkill verður þú að hjóla niður Death Road. Þessi vegur var eitt sinn hættulegasti vegur veraldar, en hann hefur nú verið lagfærður að hluta til.
Að ferðast til og um Bólivíu
Það gæti verið ódýrara að fljúga til annarra Suður-Amerískra stórborga og ferðast landleiðis yfir til Bólivíu, frekar en að fljúga beint til La Paz eða Sucre. Leiðirnar frá Argentínu og Perú eru bestar.
Næturrúturnar eru þægilegasti ferðamátinn um Bólivíu en hafðu í huga að bæði vegirnir og rúturnar eru lélegri en í flestum öðrum löndum Suður Ameríku. Ef þú vilt öðruvísi upplifun er skemmtilegt að ferðast um í ódýrum jeppum.
Bólivía liggur mjög hátt yfir sjávarmáli og því verður mjög kalt þar. Loftslag landsins er þó fjölbreytt svo þú ættir alltaf að geta fundið ágætt veður einhversstaðar.
Besti ferðatíminn er frá maí til október. Á þessu tímabili er veðurfar þurrara og þú færð fleiri bjarta daga.
Mótmæli og verkföll eru algeng og geta stundum farið úr böndunum. Farðu því varlega og varastu að lenda í slíkum samkomum.