Melbourne, höfuðborg Victoria fylkis er frábær áfangastaður fyrir ferðamenn sem hafa áhuga á menningu, víni, góðum mat og tónlist. Þar eru margar árlegar hátíðir af ýmsu tagi. Nokkrar af þeim stærri eru Big Day Out (janúar), Moomba Waterfestival (mars), Melbourne International Food & Wine Festival (mars), Melbourne International Film Festival (júlí/ágúst) og Melbourne Cup Carnival (nóvember). Auk þessa eru haldnir ýmsir alþjóðlegir íþróttaviðburðir í Melbourne, t.d. Australian Open (tennis, janúar), Grand Prix (formúla, mars), AFL Grand Final (ástralskur fótbolti, september) og Melbourne Cup (veðhlaupahestar, nóvember).
Týndi fjarsjóður borgarinnar
Hliðargötur Melbourne eru hinn týndi fjársjóður borgarinnar, kíktu á hina heillandi Hardware Lane (á milli Bourke og Little Bourke St) en þar eru útiveitingastaðir í röðum. Þar er hægt að eiga kósý kvöldstund, borða góðan mat og hlusta á götulistamenn flytja djass. Önnur frábær hliðargata er Bank PI þar sem þú upplifir þig sjálfsagt eins og þú hafir gengið inn til Evrópu þegar þú sérð gamaldags byggingarnar og götumyndina.
Úthverfi Melbourne
Úthverfi Melbourne heilla öll, hvert á sinn einstaka hátt. St Kilda (15 mínútur með sporvagni frá miðborginni) er í miklu uppáhaldi meðal bakpokaferðalanga. Þar eru gullnar sandstrendur, pálmatré, flottir barir, þekkt gistiheimili, afslappað andrúmsloft og spennandi viðburðir allt árið um kring.
Port Melbourne (5-10 mínútur með sporvagni frá miðborginni) er nýtískulegt og töff hverfi í efri klassa. Þar munt þú sjá flotta Lambourghini bíla rúlla hægt niður göturnar við hlið glansandi Porche bifreiða. Í hinu vinsæla hverfi Richmond er Chapel Street (5-10 mínútur með sporvagni frá miðborginni) og þar er hægt að ganga á milli alþjóðlegra tískuvöruverslana og fara á litríka markaði, fá sér fullkominn cappuccino á götukaffihúsi.
Umhverfis Melbourne
Þegar þú hefur fengið nóg af stórborgarlífinu er gott að vita að rétt utan við borgarmörkin eru ferðamenn komnir í náttúruparadís Victoria. Great Ocean Road tekur ferðamenn meðfram fallegu suðvesturströndinni fram hjá kalksteinaklettum og í gegnum lítil þorp. Þessi leið er fullkomin ef þú ert með bílaleigubíl. Hinum megin við Port Philip Bay er Mornington Peninsula sem býður upp á æðislegar vínekrur, gullnar strendur og þar er hin vinsæla Philip Island.
Matur og næturlífið í Melbourne
Hvort sem það er til að fá sér latte og beyglu með osti eða skella sér á átta rétta kvöldmáltíð í heimsklassa og fá sér áströlsk vín með. Borgin hefur gríðarmikið úrval af kaffihúsum, veitingahúsum og litlum matsölustöðum sem leynast í hverri hliðargötu og á stærri svæðum og eru gæðin á heimsklassa. Auk alls þessa áttu eftir að hrífast enn meira af Melbourne þegar þú uppgötvar hversu mikið innfæddir elska eigin borg og það sem hún býður upp á! Finna má flotta bari og klúbba, alls staðar í Melbourne, þar sem þú getur dansað fram á rauða nótt eða fengið þér nokkra kalda og rætt ástralskar íþróttir við innfædda (góð leið til að eignast vini, en vertu viss um að þú vitir hvað þú ert að tala um!)