Hversu lengi?
Þegar kemur að því að ferðast í kringum heiminn ættirðu að áætla að það taki um 2-3 mánuði, sérstaklega ef þú ætlar að njóta þess og kynnast stöðunum sem þú heimsækir. Vissulega geturðu ferðast hraðar um, en það mun án efa bitna á ferðinni. Flestir nota 3 mánuði upp í heilt ár til að ferðast í kringum heiminn. Auðvitað veltur lengdin svo á fjölda áfangastaða, hversu mikið þú ferðast landleiðis, hvort þú stoppar í lengri tíma á einhverjum stað til að vinna eða læra o.s.frv.
Tveir mánuðir eru lágmark
Almennt má segja að það taki um það bil tvo mánuði að ferðast um heila heimsálfu. Þetta gildir t.d. ef maður ferðast um Asíu; frá Hong Kong í norðri yfir til Víetnam, Kambódíu, Tælands, Malasíu, Indónesíu og endar svo á Balí í suðri. Það er hægt að komast þetta á skemmri tíma, en það þýðir að nánast allur tíminn mun fara í flug og samgöngur á milli áfangastaða og lítill tími færi í að upplifa og njóta.
Það er einnig mögulegt að fara í hringferð um Ástralíu, keyra „route 66“ í Bandaríkjunum eða ferðast frá Buenos Aires til Bogotá á tveimur mánuðum. Ef þig langar hinsvegar aðeins til að sjá eina borg eða eitt land þá geturðu auðvitað reiknað með mun minni tíma.
Flug eða landsamgöngur?
Ef þú hefur lítinn tíma til ráðstöfunar skaltu íhuga að fljúga eins mikið og þú getur því landsamgöngur geta verið hægar og það er leiðinlegt að eyða öllum sínum tíma í rútum og lestum. Ef þú hefur nægan tíma getur verið gaman og ódýrt að reyna að ferðast eins mikið og þú getur landleiðis því þannig færðu virkilega að upplifa landið og kynnast íbúum þess.