Í Botsvana finnur þú það allra besta sem Afríka hefur upp á að bjóða, á tiltölulega litlu svæði. Þar getur þú farið í safarí í Chobe þjóðgarðinn, kannað grösugar sléttur Okavango Delta, fengið sand milli tánna í Kalahari eyðimörkinni og margt fleira.
Að ferðast um Botsvana í bíl getur verið langt ferðalag í gegnum autt og fábrotið landslag, en það á eingöngu við um suðurhluta landsins - norðurhlutinn er stórkostlegur! Gaborone er höfuðborgin, en ef þú hefur nauman tíma þá er ekki nauðsynlegt að heimsækja hana. Við mælum frekar með því að þú ferðast til Maun sem er fimmta stærsta borg Botsvana en þar getur þú einnig byrjað safaríferð þína.
Hvað á ég að gera í Botsvana?
Ekki missa af því að heimsækja Okavango Delta sem er stærsta óseyri í heimi. Þetta svæði var eitt sinn hluti af ánni Makgadikgadi, en hún þornaði upp fyrir 10.000 árum síðan. Í dag er ekkert útrennsli frá Okavango til sjávar. Þess í stað rennur áin út á sanda Kalahari eyðimerkurinnar sem þekur um 15,000 km² svæði.
Okavango er heimkynni mikils dýralífs og dregur að þúsundir ferðamanna á hverju ári. Eyddu nóttinni í tjaldbúðum við óseyrina! Ef þig langar að gera ferðina enn ævintýralegri þá getur þú valið tjaldbúðir sem er aðeins hægt að nálgast á mokoro (kanó).
Makgadikgadi er stór saltslétta í norðurhluta landsins og er sléttan sú stærsta í heimi. Hér býr fjölmennasti sebrahesta-kynstofn Afríku. Að tjalda undir berum himni á miðri sléttunni er meiriháttar upplifun...ef það rignir ekki!
Þjóðgarðar Botsvana
Chobe þjóðgarðurinn í norðvesturhluta landsins er þriðji stærsti þjóðgarður Botsvana á eftir Central Kalahari Game Reserve og Gemsbok þjóðgarði. Chobe er vinsælasti þjóðgarður landsins, enda býr hann yfir mesta fjölbreytileikanum. Þegar dýrin byrja að streyma niður að Chobe ánni til að svala þorstanum á eftir að vera erfitt fyrir þig að að ákveða hvert þú ættir að horfa, dýrin eru allsstaðar!
Moremi Game Reserve er annar þjóðgarður sem er vestanmegin við Okavango Delta og er nefndur eftir höfðingja BaTawana ættflokksins, Moremi. Yfir regntímabilið flæðir oft yfir Moremi og við og við er garðinum lokað sökum þess. Þú skalt passa þig að festa ekki jeppann í Moremi því það gæti reynst erfitt að komast burt!
Hvenær er best að ferðast til Botsvana?
Besti ferðatíminn er strax eftir regntímabilið, eða frá desember til mars og einnig er frábært að ferðast frá miðjum apríl til júní. Meðalhiti allan ársins hring er um 25°C, en á næturnar yfir sumartímann getur hitinn farið undir frostmark.
Að ferðast um Botsvana
Auðveldasta og þægilegasta lausnin er að ferðast í litlum hópum með leiðsögumanni. Til þess að skoða svæði eins og Okavango, Moremi og Chobe er leiðsögn nánast nauðsynleg! Skelltu þér í eina frábæra ævintýraferð og njóttu alls þess sem Botsvana hefur upp á að bjóða. Botsvana er tiltölulega hættulaust land miðað við mörg önnur lönd í Afríku. Fólk er mjög vingjarnlegt og því finnst það mikill heiður að ferðamenn velji landið þeirra sem áfangastað.
Góð ráð
Við mælum með að skoða Victoriufossana í Zimbabve sem eru aðeins í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá Botsvana!