Norðaustur af Madagaskar, í hlýju Indlandshafinu, finnur þú hinar ævintýralegu Seychelles-eyjar. Þetta er fullkominn staður til að taka því rólega og virkilega njóta lífsins. Í Seychelles-eyjaklasanum er dásamlegt dýralíf, jafnt á jörðu sem og í sjónum. Slakaðu á undir pálmatré sem bærist í golunni, farðu í ferð inn í frumskóginn, borðaðu mangó beint af trjánum og, síðast en ekki síst, taktu þér tíma til að skoða heillandi dýralífið og gróðurinn. Flestar eyjarnar eru óbyggðar og vegna takmarkana á því hversu margir ferðamenn fá að koma þangað hefur tekist að halda eyjunum mjög ósnortnum.
Hvað á ég að gera á Seychelles-eyjum?
Það besta sem þú getur gert á Seychelles er að koma þér vel fyrir á ströndinni, leyfa letinni að ná yfirtökunum í sólinni og kæla þig í kristalstærum sjónum. Á eyjunum eru ótrúlegar strendur sem bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu. Víða má finna frábæra staði til að snorkla og kafa en hér eru einnig góðar aðstæður til að sörfa.
Eitt af því sem þú verður að skoða þegar þú ferðast til Seychelles-eyja eru Coco-de Mer pálmatrén, en þau bera tvær hnetur sem geta orðið allt að 30kg! Pálmatrén eru einungis á eyjunni Praslin og best er að sjá þau í Valle de Mai þjóðgarðinum. Garðurinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Þegar þú ferð til Praslin ættir þú að skella þér á austurhluta eyjarinnar því þar eru strendur sem þú mátt ekki missa af; Grand Anse og Petit Anse.
Sjávarlífsþjóðgarðurinn St. Anne er líka eitthvað sem þú ættir að skoða, en það er einungis hægt að fara þangað með bát frá Mahé.
Seychelles-eyjar hafa verið undir stjórn margra landa í gegnum tíðina og það útskýrir hvers vegna matarmenning Seychelles-eyinga er eins og hún er; vel krydduð og undir áhrifum frá öllum heimshornum. Prófaðu handtínda ávexti frá eyjunum og allar fersku sjávarafurðirnar. Ef þorstinn gerir vart við sig gætir þú sötrað Seybrew bjórinn sem er bruggaður á staðnum og ef þú vilt eitthvað aðeins sterkara framleiða þeir dökkt Takamaka romm.
Höfuðborg Seychelles-eyja: Victoria
Höfuðborg eyjanna, Victoria, er staðsett á stærstu eyjunni sem ber nafnið Mahé. Í borginni búa flestir íbúar eyjanna. Í Victoria er áhugavert að skoða höfnina og skella sér á markaðinn. Svo mælum við með ferð á ströndina í Beau Vallon Bay þar sem þú getur tekið þér sundsprett áður en þú heldur áfram skoðunarferð þinni um hinar paradísareyjarnar.
Að komast til og á milli staða á Seychelles
Skipuleggðu ferðina þína til Seychelles-eyja með góðum fyrirvara því fjöldi ferðamanna sem fær að heimsækja eyjarnar á hverju ári er takmarkaður.
Það eru margar leiðir til að komast á milli staða á Seychelles-eyjum. Hægt er að leigja bíl, reiðhjól eða einfaldlega ganga á milli staða. Til að ferðast á milli eyjanna getur þú siglt, leigt bát eða, ef þú hefur efni á því, ferðast með þyrlu!
Gisting á Seychelles-eyjum
Seychelles-eyjar eru áfangastaður í sérflokki, sérstaklega þar sem þær hafa þróast svo lítið. Þetta kemur fram í verðinu sem er frekar hátt. Gisting er stærsti kostnaðarliðurinn við ferð til eyjanna svo láttu okkur endilega hjálpa þér.