Xi′an var áður fyrr upphaf Silkileiðarinnar miklu í austri. Þar blandaðist ríkidæmi við eyðimerkur, lútutónlist og lykt af kameldýrum. Hinni miklu valdatíð borgarinnar lauk þó á 10. öld og borgin fór í mikla niðurníðslu vegna deilna innan Kína. Nú á dögum er Xi′an nútímaleg borg og hin mikla sögulega arfleifð er þó sýnileg öllum sem ferðast til Xi′an.
Hvað á að gera í Xian?
Við mælum með að þú nýtir tækifærið og upplifir brot af 2000 ára sögu Kína á nokkrum dögum: Sjáðu kínverskar pagóður (e. pagoda), borgarmúra, terracotta verksmiðjur og terracotta stríðsmenn. Þú getur líka baðað þig í heitu hveri, séð litríkar danssýningar og endað daginn á slakandi heilnuddi.
Aðal aðdráttarafl Xi′an: Terracotta stríðsmennirnir
Langstærsta aðdráttarafl Xi′an, og eitt stærsta aðdráttarafl landsins á eftir Kínamúrnum, er Terracotta herinn. Þetta er eitthvað sem þú mátt alls ekki missa af ef þú heimsækir Xi′an! Þegar þú kemur inn í stóra salinn og lítur í fyrsta sinn yfir endalausar raðir af stríðsmönnum í fullri stærð hefur þú enga hugmynd um hvað það er eiginlega sem þú ert að horfa á. Það hljómar eiginlega ævintýri líkast að Qin Shi Huang keisari hafi verið svo hræddur við dauðann að fyrir tvö þúsund árum að hann hafi látið útbúa 8000 manna her í grafhvelfingu sinni til að gæta sálar sinnar. En svoleiðis var það nú!
Terracotta herinn er talinn vera yfir 2000 ára gamall, en hann grófst undir jörðu og var ekki uppgötvaður aftur fyrr en árið 1974 þegar bóndi einn var að grafa brunn. Bóndinn sem fann Terracotta hermennina og kom í veg fyrir að þeir féllu í gleymsku starfar nú fyrir kínversku ríkisstjórnina og áritar bækur. Það er í alvörunni atvinnan hans!
Leyndarmál Xi′an: Grafhvelfing fyrrum keisarans Jingdi
Vanmetnasta leyndarmál Xi′an er grafhvelfing fyrrum keisarans Jingdi. Jingdi ríkti nokkrum hundruðum ára á eftir Qin Shi og í grafhýsi hans eru líka 8000 Terracotta hermenn, bara pínulitlir. Jingdi var undir áhrifum frá óhefðbundinni trúariðkun taóisma og því segir gröf Jingdi meira um daglegt líf Kínverja heldur en stríð.
Kvöldgöngur í Xi′an
Þegar kvöldar er dásamlegt að ganga um borgina og njóta lífsins. Eitt af því sem er gaman að skoða í Xi′an að kvöldlagi eru upplýstu turnarnir Bell Tower og Drum Tower. Þeir eru frá 14. öld og hafa varðveist vel. Á daginn eru þessar gríðarmiklu byggingar gráar en á kvöldin eru þær baðaðar gylltum litum frá ljóskösturum.
Borgarmúrar Xi′an
Þú getur líka gengið á borgarmúrum Xi′an. Þeir eru 14 km í þvermál og beinir. Það tekur um fjóra klukkutíma að ganga um allan múrinn og frá 12 metra háum veggnum færðu gott útsýni yfir miðborg Xi′an. Útsýnið er fullt af andstæðum; hefðbundnar kínverskar byggingar í bland við moskur, þéttbyggð íbúahverfi, skýjakljúfa og verslunarmiðstöðvar. Það er líka gaman að leigja reiðhjól og hjóla um múrinn.
Bænahús og nirvana
Þegar þú ferðast í gegnum Xi′an kemstu ekki hjá því að taka eftir mjög svipsterkri byggingu sem geymir Big Goose pagóðuna, en þessi 64 metra háa bygging gnæfir yfir húsþökin. Pagóðan var byggð á sama tíma og upprunalegu borgarmúrarnir, á 7. öld, til þess að hýsa öll búddalíkneskin sem vinsæll búddamunkur kom með frá Indlandi. Byggingin hefur sjö hæðir sem eiga hugsanlega að tákna skrefin sjö sem ganga þarf í gegnum til þess að ná nirvana.
Við mælum með að þú klifrir upp á efstu hæð, stundir smá hugleiðslu og njótir útsýnisins. Þá fyrst verður ferðalagið þitt til Xi′an fullkomnað.