Kuala Lumpur er höfuðborg Malasíu. Þessi asíska stórborg býður upp á allt sem þarf fyrir vel heppnað frí. Eitt af frægustu kennileitum borgarinnar er Petronas Twin Towers sem við mælum með að allir sem eiga leið um borgina kíki á. Þessir glansandi turnar standa tignarlegir í miðri borginni. Á kvöldin eru þeir lýstir upp og þá eru þeir jafnvel enn glæsilegri. Taktu lyftuna hálfa leið upp því þaðan er frábært útsýni yfir borgina.
Borginni er skipt í nokkur svæði en þau áhugaverðustu fyrir ferðamenn eru eftirfarandi:
- Miðborg Kuala Lumpur: Hér finnur þú Merdeka torg, Sultan Abdul Samad bygginguna og Selangor klúbbinn ásamt gamla kínahverfinu (e. Chinatown) þar sem er góður matur og markaðir.
- Gyllti þríhyrningurinn: Áberandi hverfi þar sem flest af lúxushótelum borgarinnar, spegilglansandi verslunarmiðstöðvar, partýstaðir og Petronas Twin Towers eru staðsett.
- Tuanku Abdul Rahman: Nágrannahverfi Gyllta þríhyrningsins og aðeins ódýrara. Þarna eru gistimöguleikar á góðu verði og áhugaverð verslunarhverfi.
Verslun í Kuala Lumpur
Verslun í Kuala Lumpur er æðisleg og þá skiptir ekki máli hvort þú verslar í verslunarmiðstöðvum eða á mörkuðum. Verslunarmiðstöðvarnar bjóða upp á allt sem hugurinn girnist þegar kemur að þekktum skótegundum, veskjum og töskum, fatnaði og skartgripum en á nokkuð viðráðanlegu verði. Það eina sem stöðvar þig í að kaupa allt sem hugurinn girnist eru farangurstakmörk. Gættu þín að fara ekki yfir þau svo allur sparnaðurinn fari ekki í að borga yfirvigt.
Næturlíf Kuala Lumpur
Næturlíf Kuala Lumpur er frábært og öruggt, jafnvel fyrir konur sem ferðast einar. Drykkirnir eru bragðgóðir og ódýrir og plötusnúðarnir eru á heimsklassa! Í heildina er verðlagið lágt og gleðin í hámarki!
Að komast til Kuala Lumpur og að ferðast innan borgarinnar
Í Kuala Lumpur er alþjóðlegur flugvöllur og þaðan fara tengiflug um allan heiminn, því er auðvelt að hafa borgina með í ferðaáætlunum. Samgöngur innan Kuala Lumpur eru góðar. Þú getur valið um rútur, leigubíla og neðanjarðarlestir/hraðlestir, allt á viðráðanlegu verði.