El Salvador er minnsta land Mið-Ameríku en það er fyrir þá sem elska að fara til staða sem aðrir ferðamenn hafa ekki enn fundið. Menn minnast landsins oft fyrir ofbeldisfulla fortíð þess, en í nútímanum hefur það allt breyst. Íbúar landsins eru vingjarnlegir og náttúra landsins er stórbrotin. Fjöllin, eldfjallalandslagið og fallegir skógar gera landið að paradís fyrir göngufólk.
Faldir gimsteinar í El Salvador
El Salvador er full af vistfræðilegum gimsteinum sem fáir skoða en einn sá alflottasti er Parque Nacional Montecristo - El Trifinio. Garðurinn er staðsettur í mikilli hæð í þessum þokukennda regnskógi og þar er mjög áhugavert náttúrulíf. Fáðu leyfi hjá Wild Life Service og skoðaðu brönugrös og sjaldgæfa köngulóarapa. Ef heppnin er með þér gætir þú jafnvel séð fjallaljón.
Parque Nacional Los Volcanes er virkilega fallegur þjóðgarður sem nær umhverfis þrjú eldfjöll. San Salvador eldfjallið hefur tvo tinda og það er vegur upp á topp. Þaðan er frábært útsýni yfir gíginn!
Lago de Coatepeque er tært og hreint eldfjallavatn sem er umkringt af fjallstindum. Það er fullkomið að fara í dagsferð þangað. Ekki gleyma sundfötunum!
Nýlenduborgirnar bjóða upp á áhugaverða staði eins og söfn sem sýna hina miklu sögu landsins. Borgin San Salvador er ekkert svo spes raun er borgin fátækleg og skítug. Skoðaðu frekar smærri þorp.
Surf, köfun og önnur afþreying í El Salvador
Öldurnar í El Salvador eru fullkomnar fyrir surf. Taktu strætó (e. chicken bus) eða leigubíl frá strandarbænum La Libertad til norðurs en þar finnur þú indælar minni strendur þar sem er næstum enginn annar. Playa Zunzal og Tunco eru mjög fallegar strendur með góðu surfi.
Bestu staðirnir fyrir köfun eru á Los Cóbanos ströndinni en þar eru kóralmyndanir allt um kring. Það eru líka mörg tækifæri fyrir gönguferðir.
Að komast á milli staða í El Salvador
Leigubílar og litlir strætisvagnar, colectivo, eru þægileg leið til þess að komast á milli staða. Mjög góð, alþjóðleg, rútufyrirtæki koma við í Terminal Puerto Bus í San Salvador. Rúturnar sem fara á milli borga eru gamlir bandarískir skólabílar, þetta er ódýr ferðamáti en ekki svo þægilegur.
Öryggi
Staðreyndin er sú að þú munt sjá mikið af litlum vopnum á strætum úti. Gættu þín þegar þú ferðast á vegum úti og þjóðvegum þar sem glæpir eru oft framdir þar. Það er alltaf best að forðast það að ferðast þegar er orðið dimmt. Fyrsta flokks rútur eru alltaf öruggari en ódýrari kosturinn.