Japan er þekkt fyrir hið óvenjulega og einstaka. Hvað með að prófa þessar fimm sturluðu afþreyingar sem Tókýó hefur upp á að bjóða?
Gleymdu hápunktunum og skildu ferðahandbækurnar eftir í töskunni: Stundum er það óvænta og einkennilega eina sem þú þarft! Tókýó hefur svo sannarlega nóg af því upp á að bjóða. Hér eru nokkrar skemmtilegar tillögur af þeim ótal mörgu sem við gátum valið úr.
Hvað gerir Tókýó svona sérstakt?
Tókýó er iðandi borg sem sameinar framúrstefnulega tækni og hefðbundna menningu. Þar mæta neonljós fornum hofum og matarævintýri bíða í hverju horni. Þetta er borgin sem sefur aldrei, verslunarhverfi líkt og Shibuya og Ginza halda þér á fótum allan liðlangan daginn og kennileiti borgarinnar eins og Tókýó turninn og keisarahöllin munu gera þig agndofa. Tókýó er tilvalin borg fyrir listunnendur og má finna ótal söfn og gallerí í gegnum borgina sem sýna fram á fjölbreytileika japanskrar sköpunargáfu. Á þeim stundum þegar tími er kominn til að draga sig í hlé, þá skín andleg hlið borgarinnar í gegn í fjölmörgum helgistöðum og hofum. Þetta er flottasta samansafn af því forna og nýja í Tókýó - borginni sem er alltaf á ferðinni.
Með öllu því sem hægt er að sjá og skoða getur verið allt of auðvelt að gleyma öllum einstöku upplifunum sem leynast í öllum hornum borgarinnar. Þessar fimm tillögur snúast allar um það sem gerir Japan að Japan án þess að falla í klisjur og staðalímyndir. Ef þú hefur ferðast svona langt, þá er betra að þú gleypir smá af staðbundinni menningu á meðan þú ert að því!
1. Syngdu úr þér lungun í Karaoke
Vissir þú að Karaoke á rætur að rekja til Japan? Karaoke er stór hluti af japanskri menningu og í Tókýó er fjöldinn allur af Karaoke börum og skemmtistöðum, til dæmis eru Joysound, Big Echo og Manekineko vinsælir meðal heimafólks. Þessir skemmtistaðir eru ekkert í líkindum við þá sem við þekkjum á Íslandi. Í Japan færðu einkaherbergi græjað öllu sem þú þarft til að halda geggjaða tónleika. Í lagaúrvalinu muntu finna slatta af J-Pop en við segjum ekki frá ef þú freistast til að belta Bohemian Rhapsody og taka allar bakraddirnar með. Þú getur pantað mat og drykk beint í herbergið svo þú getur átt hið fullkomna Karaoke kvöld án þess að þurfa að yfirgefa partýið! Við erum að segja þér það, þetta er algjört möst fyrir geggjað kvöld í Tókýó.
2. Vertu Samúræi í sólarhring
Lærðu leiðir samúræjana þegar þú heimsækir Japan. Þetta gæti kannski virkað eins og algjör túristagildra en þvert á móti er þetta frábær leið til að öðlast innsýn í japanska menningu og sögu. Þjálfunin felur nefnilega í sér mikið meira en bara að klæða sig upp í búning, sveifla sverði og pósa fyrir Instagram. Þér verður gefið tækifæri til þess að kynnast mikilvægi og sögulegu gildi Samúræ-kóðans, sem leggur áherslu sjálfsaga, virðingu og trúnað. Þér verður kennt að hugleiða og grunnatriði í sverðfimi. Að læra leiðir samúræjanna gefur þér örlita innsýn í langa og sögulega fortíð landsins og vonandi aukinn andlegan styrk þegar þú labbar út eftir daginn.
P.s. Ef þú hefur miklu meiri áhuga bara á að sveifla sverðinu ættirðu að kíkja á hefðbundinn japanskan járnsmið. Sumir gefa þér meira að segja tækifæri á að búa til þitt eigið sverð eða hníf! Talandi um fullkominn minnisgrip.
3. Heimsæktu japanskan leikjasal
Það eru hvergi leikjasalir eins og þeir sem má finna í Japan. Hvort sem þú vilt spila margverðlaunaða leiki með vinsælum Anime persónum eða bara einn gamlan og góðan Mario Kart þú muntu finna eitthvað fyrir þig. Þessir litríku leikjasalir eru stútfullir af nýjustu leikjum og tækni á markaðinum og á mjög hagstæðu verði! Þú borgar þig ekki inn, heldur bara fyrir leikina sem þú vilt spila.
Þetta er tilvalinn staður til þess að heimsækja með vinum en auðvitað geturðu líka farið sóló. Það skiptir engu máli hvort þú sért algjör tölvuleikjanördi eða kunnir varla á tölvumús, Það er nóg til af leikjum fyrir alla. Við mælum sérstaklega með að kíkja í hverfið Akihabara en þar leynast leikjasalir nánast á hverju horni.
Ertu tilbúin/nn/ að uppgötva japanska menningu og reyna að vinna eitthvað fáranlegt í verðlaun? Gríptu helling af yen og búðu þig undir geggjað kvöld í japönskum spilasölum.
4. Upplifðu hefðbundna japanska leiksýningu
Dýfðu þér í fegurð japanskrar menningar með ótrúlegri frammistöðu á Kabuki, Noh eða Bunraku. Þessar hefðbundnu sviðslistir bjóða upp á einstaka upplifun þar sem einblínt er á arfleið Japans í gegnum litríka búninga, fallegar grímur, áhrifamikla tónlist og dramatískar sögur. Hvort sem þú ert leikhúsunnandi eða bara að leita að einhverju nýju og öðruvísi, láttu flytja þig yfir í annan heim þegar þú horfir á Kabuki, Noh eða Bunraku sýningu. Þetta er einfaldlega möst þegar þú heimsækir Tókýó. Sýningarnar eru ekki dýrar og eru fluttar út um alla borg, í leikhúsum, hátíðum og meira að segja á götunni. Skoðaðu GoTokyo viðburðadagatal til að sjá hvað er í gangi á meðan þú ert á ferðinni.
5. Kryddaðu tilveruna með einu af skemmtilega skrýtnu kaffihúsunum
Þegar nýtt trend poppar upp á yfirborðið eru Japanir fljótir að lyfta því upp á næsta level, og Tókýó er algjörlega miðpunktur þeirrar hugsunar. Kattakaffihús er gott dæmi um þetta trend, sem japanir tileinkuðu sér á methraða og það byrjuðu að poppa upp alls konar dýrakaffihús, meira að segja flóðsvínakaffihús. Þó við viljum ekki endilega mæla með kaffihúsum sem nota dýr sem miðpunktinn eru helling af öðrum sem við mælum heilshugar með. Til dæmis Alice in Fantasy Book kaffihúsið í Shinjuku eða Pokémon Café (bókaðu fyrirfram!).
Viltu meira af Japan?
Þetta var bara stutt innsýn í það sem Tókýó hefur upp á að bjóða, en það er svo margt fleira að til að skoða. Of mikið fyrir eitt blogg í raun og veru, þannig að ef þú vilt vita meira um að búa til þitt eigið ævintýri í landi hækkandi sólar erum við hér fyrir þig! Deildu spennunni með ferðasérfræðingum okkar og þeir munu sjá til þess að hjálpa þér að skipuleggja ógleymanlega ferð.
Sendu okkur skilaboð