Hvað kostar að fara í heimsreisu?
Flestir sem elska að ferðast hafa pælt í því hvað heil heimsreisa kostar. Því miður er ekki til neitt eitt svar við þeirri spurningu, en við ætlum að reyna að gefa þér nokkuð góða hugmynd um hversu mikið þú þarft að safna þér inn fyrir drauma heimsreisunni og hversu miklu fólk eyðir á mánuði í hverri heimsálfu.
Það er ágætt að skipta kostnaðinum í tvennt; annars vegar það sem þú þarft að greiða áður en þú leggur af stað og hins vegar það sem þú þarft að borga á ferðalaginu sjálfu.
Kostnaður fyrir brottför
Það helsta sem þarf að greiða áður en þú leggur af stað er:
- Flug & aðrar samgöngur
- Ferðir & námskeið
- Ferðatryggingar
- Bólusetningar & lyf
- Vegabréfsáritanir
- Bakpoki & annar útbúnaður
Flug eru oftast stærsti einstaki kostnaðarliðurinn og flestir bóka öll löngu flugin sín áður en lagt er af stað því það er bæði hagstæðara og öruggara. Verð fyrir flugin fer eðlilega eftir því hversu langt þú ert að fljúga, til hversu margra áfangastaða og með hversu miklum fyrirvara þú bókar flugin. Við hjá KILROY erum með góða samninga við fjölda flugfélaga og getum sett saman hagstæðar heimsreisur fyrir ungt fólk og námsmenn með því að sameina marga áfangastaði í einn flugmiða, nýta millilendingarnar sem stopp o.fl. Þú getur skoðað verðhugmyndir fyrir mismunandi flugleiðir hér en venjulega kostar á bilinu 360.000 og 500.000 kr að fljúga hringinn í kringum heiminn.
Markmiðið með heimsreisu er að prófa eitthvað nýtt og hafa gaman, þess vegna bóka flestir einhverskonar skipulagðar ævintýraferðir, námskeið eða afþreyingu áður en lagt er af stað. Ekki misskilja okkur - við mælum ekki með því að fólk sé búið að skipuleggja hvern einasta dag í ferðalaginu áður en lagt er af stað og skilji ekki eftir neitt svigrúm til þess að lenda í óvæntum ævintýrum. Það sem þarf að bóka með góðum fyrirvara eru vinsælar ferðir og námskeið sem seljast alltaf upp því það geta einungis farið fáir í einu, t.d. surfskóli á Balí og sjálfboðastarf með fílum í Tælandi, og hlutir sem þarf að sækja um ákveðin leyfi fyrir með góðum fyrirvara, t.d. að ganga Inca Trail í Perú. Það er líka gott að vera búin(n) að borga svona ferðir fyrirfram ef þú veist að þig langar pottþétt í þær til þess að þurfa ekki að ferðast með allt of mikinn pening á þér og vita betur hversu mikið þú mátt eyða í dagsdaglega neyslu.
Ferðatrygging er mjög nauðsynleg fyrir alla sem eru á leið í langt ferðalag! Sumir eru tryggðir í gegnum heimilistryggingu eða kreditkort, en athugaðu að slíkar tryggingar gilda oftast í takmarkaðan tíma og ná oft ekki yfir „extreme” hluti eins og köfun, surf eða sjálfboðastarf. Hafðu samband við okkur til þess að heyra um ferðatrygginguna sem við bjóðum upp á.
Bólusetningar og lyf er lúmskur kostnaðarliður sem fólk á það til að gleyma. Þú skalt hafa samband við Ferðavernd eða þína heilsugæslu til þess að fá upplýsingar um hvaða bólusetningar þú þarft og hvaða lyf er sniðugt að taka með (magalyf, ofnæmislyf, malaríulyf o.s.frv.). Þú skalt gera ráð fyrir að þetta kosti allt frá 15.000 upp í 50.000 kr eftir því hvert þú ert að fara og hversu lengi þú verður á ferðinni.
Sumar vegabréfsáritanir er hægt að fá við komu til viðkomandi lands, en aðrar þarf að sækja um fyrirfram. Þú færð upplýsingar um vegabréfsáritanir hjá Utanríkisráðuneytinu. Algengt verð fyrir vegabréfsáritun er allt frá 5.000 kr til 18.000 kr.
Það segir sig sjálft að þú þarft góðan bakpoka fyrir bakpokaferðalag. Vandaðir bakpokar kosta allt frá 25.000 kr og upp úr. Síðan er nauðsynlegt að vera með góða og létta skó, handklæði sem þornar strax (örtrefjahandklæði) og margir kaupa vasahníf, höfuðljós o.fl. Það er til endalaust af sniðugum græjum, mundu samt bara að taka ekki allt of mikið með þér!
Kostnaður á ferðalagi
- Gisting
- Samgöngur
- Matur
- Afþreying
Þessi kostnaður er mjög misjafn á milli landa. Það er t.d. eðlilegt að gera ráð fyrir minna eyðslufé í Kambódíu eða Bólivíu heldur en í Ástralíu eða Bandaríkjunum. Hér er listi yfir hversu miklum pening fólk eyðir að meðaltali í hverri heimsálfu, en mundu að það er svakalega persónubundið og þetta er bara viðmið.
- Norður Ameríka: 300.000 - 350.000 kr
- Evrópa: 300.000 - 350.000 kr
- Eyjaálfa: 300.000 kr
- Suður & Mið Ameríka: 250.000 - 300.000 kr
- Afríka: 250.000 - 300.000 kr
- Asía: 200.000 - 250.000 kr
Flestir sem fara í nokkurra mánaða ferðalag bóka fáar gistinætur fyrirfram. Það er algengt að bóka bara fyrstu nætur eftir flug áður en lagt er af stað en geyma allt hitt þar til komið er á staðinn.
Það sama á við um samgöngur; sumt er gott að bóka fyrirfram en það býður upp á meiri sveigjanleika að kaupa annað á staðnum. Við mælum þó alltaf með að bóka löngu flugin fyrirfram þar sem það er ódýrara og svo þarftu oftast að eiga bókaðan flugmiða út úr landinu til þess að fá inngöngu. Eins er hagstæðara að bóka húsbíla með góðum fyrirvara og svo er oft sniðugt að bóka rútu- eða lestarpassa áður en þú kemur til landsins þar sem þú ætlar að nota þá. Í Japan er t.d. ekki hægt að kaupa ódýra lestarpassa ef þú ert komin(n) til Japan þar sem þeir eru bara ætlaðir fyrir ferðamenn og því þarf að kaupa þá fyrir brottför.
Kostnaður miðað við lengd heimsreisu
Það er staðreynd að þeir sem eru að ferðast í styttri tíma eyða hæri upphæð á dag heldur en þeir sem eru að ferðast í marga mánuði. Þegar þú ert að ferðast í stuttan tíma viltu hafa þétta dagskrá og ná að gera sem mest á stuttum tíma svo þú eyðir meiri pening á styttri tíma. Það er því ekki þannig að þeir sem ferðast í 6 mánði eyði 6 sinnum meira en þeir sem ferðast í 1 mánuð.
Ferðasérfræðingarnir okkar hafa mikla reynslu af bæði löngum heimsreisum og styttri ferðalögum. Þau geta því aðstoðað þig við að áætla kostnað og setja saman hagstæða heimsreisu.