Það er ekkert sem mér finnst skemmtilegra að gera en að ferðast! Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á að upplifa eitthvað nýtt, sjá nýja staði og kynnast nýju fólki. Ég hef ferðast víða um Evrópu og bjó í stuttan tíma úti í Danmörku frá 2019 til 2020, þar kláraði ég eina önn í alþjóðlegum félagsvísindum áður en heimsfaraldurinn skall á. Eftir þessa reynslu varð áhugi minn fyrir því að ferðast mun sterkari þar sem ég fékk að kynnast fólki frá allskonar menningarheimum með mismunandi bakgrunn og sögur að segja.
Ég flutti þá heim, kláraði B.A. nám í félagsráðgjöf og ákvað að láta drauminn rætast árið 2023 og skellti mér í bakpokaferðalag um Asíu í með KILROY.
Ég ferðaðist til Dubai, Sri Lanka, Tælands, Víetnam, Japan, Kuala Lumpur og Balí. Þar kynntist ég þessum ólíku menningarheimum, upplifði nýja hluti sem kveiktu á fleiri áhugamálum og kynntist fullt af ferðalöngum sem ég er enn þá í sambandi við í dag.
Ég meðal annars rúntaði um eyðimerkur Dubai, sá fílafjölskyldur í Sri Lanka, fékk köfunarréttindi í Tælandi, fór í drullubað í Víetnam, borðaði fullt af sushi í Tokyo, sá Batu hellana í Kuala Lumpur og lærði að surfa á Balí.
Næst á dagskrá er annað hvort Suður-Afríka eða Mið-Ameríka.
Að ferðast er það langskemmtilegasta sem ég geri! Endilega hafðu samband ef þú vilt að ég plani þína draumferð :)