Barcelona er borg sem aldrei sefur. Þar er andrúmsloftið samt sem áður afslappað og ekkert til sem heitir stress. Þú sérð konur njóta kvöldsólarinnar með vínglas í hönd, eldri karla sitja á barn og rífast um fótbolta, börn leika sér á hlaupahjólum, unga stráka spila á gítar í garðinum og hópa af ungu fólki sitja á torgum og njóta sólarinnar.
Hvað á að sjá og gera í Barcelona?
Barcelona er ein af þeim borgum þar sem hægt er að eyða fleiri mánuðum, en þú nærð samt ekki að sjá og upplifa allt sem hún býður upp á! Þar er mjög mikið af frábærum söfnum og allir listunnendur verða að skoða Picasso safnið og Miró safnið. Svo er auðvitað skylda að sjá frægustukennileiti borgarinnar; ókláruðu dómkirkjuna La Sagrada Familia og Park Güell, garðinn sem Gaudí hannaði. Þú getur séð fleiri ævintýralegar byggingar eftir hann um borgina, t.d. á Passeig de Gracia. Ef þú vilt svo upplifa alvöru ævintýri skaltu heimsækja Parc del Labyrint d'Horta. Þetta er fallegur garður þar sem þú finnur alvöru völundarhús - það sama og var notað í myndinni Perfume.
Það er fátt skemmtilegra en að týnast í hlykkjóttum strætum elsta hluta borgarinnar og kíkja síðan inn á einn af hinum fjölmörgu tapasbörum borgarinnar og fá sér cervecita og tapas. Frá miðbænum er stutt að labba í hverfið Born sem er nálægt höfninni og þar er mikið um töff búðir, skemmtilega bari og góða veitingastaði. Annað skemmtilegt hverfi er Gracia, en það er nokkurskonar þorp inni í miðri borg. Þarna eru litlar götur fullar af einstökum búðum og skemmtilegum börum.
Ef þú vilt liggja í sólbaði getur þú farið á Barceloneta eða einhverja af enn flottari ströndum Katalóníu sem auðvelt er að nálgast með lest. Það er nóg að ferðast í 20 mín norður af Barcelona til að komast í litlar strandir þar sem minna er af fólki og sandurinn og sjórinn er mun hreinni.
Veitingastaðir og barir
Það er ýmislegt sem þú getur upplifað í Barcelona, en matur og drykkur eru stór hluti af upplifun allra sem heimsækja borgina! Ef þú vilt smakka gott Tapas þá mælum við með Born hverfinu, en þar er mikið af Baskneskum tapasstöðum þar sem boðið er upp á hlaðborð af tapasréttum.
Ef þú vilt hefðbundinn spænskan mat í sögufrægu umhverfi mælum við með Els Quatre Gats. Veitingastaðurinn opnaði árið 1897 og þarna borðuðu allir helstu listamenn og áhrifafólk Barcelona á sínum tíma.
Salir de fiesta - Næturlíf Barcelona
Næturlíf Barcelona er fjölbreytt og þú getur eytt kvöldinu á litlum og myrkum tapasbörum, jazzklúbbum, salsa dansstöðum eða á risastórum klúbbum. Skemmtilegasti hluti næturlífsins fer þó fram á torgum miðbæjarins þar sem ólíkt fólk safnast saman til að sötra bjór, spjalla um lífið og tilveruna.
Að versla í Barcelona
Það er mjög skemmtilegt að ganga niður la Rambla og skoða túristabúðirnar, blómastandana, málverkin sem listamennirnir mála og götunni og kíkja inn í stóra matarmarkaðinn La Boqueria. Þeir sem hafa gaman af útimörkuðum, skranbúðum, prútti og fornminjum verða að kíkja á Els Encants flóaamarkaðinn. Þarna finnur þú bókstaflega allt!
Að komast á milli staða í Barcelona
Besta leiðin til að skoða borgina er klárlega fótgangandi. Ef þú færð blöðrur er allt í lagi að fara í neðanjarðarlestina, trammin eða með strætó, bæði auðvelt og ódýrt.
Gott að hafa í huga þegar þú heimsækir Barcelona
Eins og í öðrum stórborgum ættir þú að passa vel upp á veskið þitt. Það er nokkuð um vasaþjófa, sérstaklega í neðanjarðarlestunum og fjölmennustu túristastöðunum, svo það gæti horfið ef þú ert ekki að passa þig.