Yosemite þjóðgarðurinn er einn af vinsælustu þjóðgörðum Bandaríkjanna. Yosemite er staðsettur í miðjum Sierra Nevada fjallgarðinum í Kaliforníu, einungis 2 klst akstur frá San Francisco, og er þekktur fyrir stórkostlegt landslag með mögnuðum fossum, háum klettum og frábærum gönguleiðum.
Yosemite National Park er grænn og gróinn þjóðgarður sem hefur að geyma nokkra af hæstu fossum Norður-Ameríku. Á sumum stöðum getur þú staðið svo nærri fossunum að þú finnur vatnsúðann á andlitinu. Einn fallegasti fossinn í þjóðgarðinum er Upper Yosemite Falls þar sem fallhæðin er heilir 740 metrar.
Lóðréttir klettar Yosemite
Yosemite þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1890 og nær yfir u.þ.b. 3000 ferkílómetra. Þjóðgarðurinn er einna þekktastur fyrir fallega kletta, sérstaklega þá sem þú finnur í Yosemite Valley eins og Half Dome, El Capitan og fleiri nánast lóðrétta klettaveggi sem skaga nánast 1000 metra upp í loftið. Þessir stórbrotnu klettar eru á meðal helstu kennileita vesturhluta Bandaríkjanna.
Glacier Point & Tioga Road
Frá Glacier Point er magnað útsýni yfir dalinn og þaðan getur þú séð alla þessa fallegu kletta. Þú getur einnig keyrt í gegnum þjóðgarðinn og Sierra Nevada fjöllin eftir Tioga Road sem áður var notaður af bæði indíánum og gullgröfurum. Í þessum hluta Yosemite mun þér líða eins og þú sért dottin(n) langt aftur í tímann og að sagan sé við það að lifna við! Á leiðinni er mikið af útsýnisstöðum svo þú getur stoppað bílinn og teygt úr þér á meðan þú nýtur þess að horfa yfir dalinn. Athugaðu þó að vegurinn gæti verið lokaður yfir vetrarmánuðina.
Það er einnig mikið af spennandi gönguferðum og dagsferðum í boði í Yosemite National Park. Í þjóðgarðinum er að finna mikið úrval gönguleiða, bæði sem hægt er að ganga á einum degi og leiðir sem tekur nokkra daga að ganga.
Mirror Lake
Mirror Lake er eitt af þekktustu vötnum Yosemite National Park. Nafnið er tilkomið vegna þess að það gárar nánast ekkert á vatninu og þegar horft er á yfirborð þess sérðu skýin, fjöllin og trjátoppana endurspeglast í vatninu.
Ekki láta hin frægu risatré Yosemite fram hjá þér fara. Þar er að finna sérstaka tegund trjáa sem vaxa í norður Kaliforníu og sum trjánna í þjóðgarðinum eru nokkurra þúsund ára gömul.
Ferskt loft og borgarlíf
Ef þú ert í Kaliforníu, Nevada, Arizona eða Utah er Yosemite hiklaust tilvalinn áfangastaður. Fáðu brot af báðum heimum með því að sameina iðandi borgarlíf San Francisco við gönguferð í stórbrotnu umhverfi Yosemite.
Á hverju ári heimsækja þúsundir manna frá öllum heiminum Yosemite þjóðgarðinn. Ef þú vilt vera út af fyrir þig í þessu töfrandi landslagi mælum við með að þú komir á "low-season”, en vinsælasta tímabilið til að heimsækja Yosemite er frá júní til september. Hafðu þó í huga að þú ert aldrei alveg ein/n í Yosemite National Park!