Úrúgvæ liggur milli Argentínu til suðurs og Brasilíu til norðurs, en landið lifir oft í skugganum af þessum betur þekktu nágrönnum sínum, oftar en ekki skilið útundan þegar ferðin um Suður-Ameríku er skipulögð.
Fæstir átta sig á að Úrúgvæ býður upp á fullt af ferðamannaparadísum, en þess vegna er landið náttúrulegt val þegar Suður-Ameríkanar fara í frí. Vinsælasti staðurinn er Punta del Este, en hann er í miklu uppáhaldi hjá frægu fólki eins og Sting og Maradona - ef heppnin er með sérð þú glitta í þá úti í búð á heitum sumardegi.
Úrúgvæ er 176,220 fermetrar á stærð og fólksfjöldinn er um 3.5 milljónir. Þetta er lítið land með STÓRT hjarta. Úrúgvæ liggur á sömu breiddargráðu og Sydney í Ástralíu. Veðráttan er mild; meðalhiti 13 gráður á veturna og allt upp í 30 gráður á sumrin.
Að versla og út að borða í Montevideo
Höfuðborgin, Montevideo liggur við árós Rio de La Platas og aðeins þriggja tíma siglingu yfir sundið liggur hin ólgandi borg Buenos Aires, höfuðborg Argentínu. Í Montevideo má sjá eina fallegustu götu Suður-Ameríku - Capital 18 de Julio - sem teygir sig frá Plaza Independiza allt til Ciudad Vieja í gamla bænum. Hinn fullkomni sunnudagur í Montevideo myndi vera að spássera um Tristan Narvaja og skoða frábæra flóamarkaðinn; þar er hægt að finna eitthvað fyrir alla. Svo verður maður að heimsækja risastóra innimarkaðinn sem er staðsettur í gamla hafnarhverfinu, Mercado del Puerto. Þar er frábært að vera þegar maður fer að vera svangur, skynfærin vakna til lífs við girnilegt úrvalið og gómsæta lyktina. Rétturinn sem þú verður að prófa er “Chivito”, safaríkt úrúgvæskt nautakjöt borið fram með nýbökuðu brauði, og best er að smakka Asado í bakgarðinum hjá fjölskyldu heimamanna á heitu sumarkvöldi. Asado er nautakjöt grillað á heitum kolum eða viðargrilli og nýtur sín best með einu eða tveimur glösum af Tannat víni...Namm!
Óvenjuleg sjón fyrir þig, en algeng í Úrúgvæ , er að næstum allir labba um með litla hitaflösku, Calabash grasker og málmrör sem heitir Bombilla. Svona virkar það: maður hellir sjóðandi vatni úr hitaflöskunni í graskerið, sem er fyllt með jurtablöndu og svo er ilmandi drykkurinn soginn upp gegnum silfrið í Bombillanu. Drykkurinn heitir Maté og er áþekkur tei.
Samgöngur í Úrúgvæ
Við mælum með að bóka flug sem stoppar á mörgum stöðum. Fljúgðu inn til Buenos Aires og heim aftur frá Rio, það veitir þér tækifæri til að sjá sem mest af Argentínu, Úrúgvæ og Brasilíu. Það er mjög einfalt að komast yfir Rio de la Plata með Buque Bus og kostar 1500 krónur hvora leið, en ferðin tekur um 3 klukkutíma.
Önnur frábær leið til að skoða sig um er að leigja bíl, - það er líka til staðar flott rútukerfi en við mælum með bílaleigubíl. Að aka frá Montevideo í suðrinu til Chuy á brasilísku landamærunum í norðri tekur um 5 tíma. Chuy er skattfrjáls paradís og margir fara þangað til að versla ódýrt. Öðrumegin við götuna borgar þú með úrúgvæskum Pesó og hinu megin með brasilísku Real.
Ferðalag eftir endilöngu landinu tekur rétt rúmlega 5 tíma. Á leiðinni eru fjölmargir gimsteinar, t.d. Punta del Este, svar Suður-Ameríku við Monte Carlo. Yfir sumarmánuðina koma hinir ríku og frægu hingað allsstaðar að úr heiminum. Þá eru hér hver tískusýningingin og dýrðlegt partíið á fætur öðru og gullfallegar strendurnar fyllast af brimbrettaköppum, ferðamönnum og þotuliði heimsins.
José Ignacio - Griðastaður hinna ríku og frægu
Skammt frá Punta del Este er mun rólegri staður, José Ignacio, gamalt fiskiþorp sem er nú griðastaður hinna ríku og frægu. Þú munt elska einfaldleikann, fallegar strendurnar og frábæra sjávarréttaveitingastaðina. José Ignacio er fullkominn staður fyrir afslappandi kvöld á ströndinni, með rauðvínsglas, útsýnið yfir sjóinn og dýrðlegt sólsetrið. Svo er hægt að binda endahnút á kvöldið með stuttum göngutúr yfir á frábæran veitingastað til að fá sér gómsæta sjávarrétti í kvöldmat.
Cabo Polonio - Ferð til fortíðar
Lengra norður, í Cabo Polonio, getur þú skilið bílinn eftir og pantað fjórhjóladrifinn bíl til að sækja þig. Hann fer með þig í ferð aftur til fortíðar, til tíma án rafmagns, síma eða malbikaðra hraðbrauta. Hér finnur þú endalausar sandstrendur og sandöldur marka sjóndeildarhringinn. Hér má sjá villta hesta að ógleymdum u.þ.b. 500 sæljónum sem liggja í sólbaði á klettunum yfir mökunartímabilið. Þetta er paradís á jörð fyrir ferðamenn sem elska náttúruna, dýralíf og brimbrettabrun á ótæmandi öldum Atlantshafsins.
Nálægt landamærunum við Brasilíu liggur Punta del Diablo, lítið fiskiþorp sem er ört rísandi í vinsældum sem ferðamannastaður. Hér líður manni eins og heima hjá sér, heimamenn eru vinalegir og andrúmsloftið í bænum er rólegt og friðsælt, litlir fallegir bústaðir liggja meðfram klettum og löngum ströndum, meðan ölduniðurinn hljómar í eyrunum. Það er fullt af veitingastöðum að velja úr, fullkomið kvöld hefst á drekka einn Caipirinha á Cueva Luna, við Playa de Pescadores ströndina. Eftir það er hægt að fara til“ El viejo y el Mar” og fá bakka með því besta sem veiddist þann daginn.
Ekki sleppa Úrúgvæ!
Úrúgvæ er land sem þú vilt ekki missa af, ekki bara vegna fallegra strandanna eða yndislegrar náttúrunnar, iðandi næturlífinu eða andrúmsloftinu – það sem gerir staðinn sérstakann er fólkið sem þú hittir. Minningar þínar af þeim muntu eiga ævilangt, örlæti þeirra og gestrisni mun gera veru þína hér svo sérstaka að þú munt fara með breitt bros á vör, fullviss um að þú munir snúa aftur hingað síðar.