Arna Petra skellti sér í heimsreisu með KILROY og deilir með okkur sínum ferðalögum
Ég heiti Arna Petra Sverrisdóttir og er 21. árs stelpa sem elskar að ferðast um heiminn, taka fínar myndir, kynnast fólki og prófa allskonar nýja hluti. Ég er fædd og uppalin á Íslandi en draumurinn hefur alltaf verið að vera allt annars staðar en á klakanum og sá draumur rættist þegar ég fór í mína fyrstu heimsreisu með KILROY. Þá var sko ekki aftur snúið skal ég segja ykkur!
Í dag bý ég í Svíþjóð og er alltaf að vinna í að plana næstu ferð… Mér finnst að allir eiga að skella sér í allavega eina svona ferð, vegna þess að þetta er eitthvað sem þú munt aldrei gleyma og aldrei sjá eftir. Það er ekkert skemmtilegra en að ferðast, sjá aðra menningarheima, prófa nýjan mat og upplifa alls konar vitleysu á ferðalaginu.
Mér þykir ótrúlega gaman að fá að deila með ykkur nokkrum ferðasögum frá ferðalaginu mínu. Fyrst förum við til Dúbaí, næst Afríku (hluti 1, hluti 2, hluti 3) og núna er það Sri Lanka!
SRI LANKA
Sri Lanka er stórkostleg eyja í Suður-Asíu. Smaragðsgrænir regnskógar, stórglæsilegar strendur og dásamlega fallegt landslag í bland við áhugaverða menningu og ríka arfleifð er brot af því sem hefur dregið ferðamenn til Sri Lanka árum saman og ferðamannaiðnaður landsins blómstrar. Heimurinn nýtur afurða frá Sri Lanka á borð við te, kaffi, kanil og kókoshneta í frábærum gæðaflokki.
Fá fría ferðaráðgjöf
DAGUR 1 - NEGOMBO
Eftir stutt og gott flug vorum við mætt til Sri Lanka. Á flugvellinum tók á móti okkur bílstjóri sem keyrði okkur á milli staða.
Bílstjórinn keyrði okkur upp á hótel þar sem við fengum heila svítu fyrir okkur. Við vorum orðin rosalega svöng þannig við skelltum okkur út í leit að kvöldmat. Við vorum svo svöng að við gátum ekki hugsað okkur að leita lengi að veitingastað, þannig við duttum við inn á veitingastað sem heitir fish & chips & pizza.
Ég pantaði mér fish&chips og haldiði að klaufinn ég hafi ekki slegið öll met. Ég var að salta matinn minn og lokið á staupinu var ekki skrúfað á og saltið hrúgaðist á matinn minn! Þannig að ég fer til þjónanna og fæ að skila matnum mínum og afsaka mig verulega þar sem ég gat ekki borðað matinn minn svona. En þeir dustuðu bara saltinu af og létu mig fá diskinn aftur hahaha. Ég fékk saltsjokk (ef það er til)… Svo fékk ég að smakka pizzusneið hjá Tómasi og botninn bragðaðist eins og tyggjó...
Gott ráð: Í Sri lanka er bara lang best að halda sér við local matinn, hann er svo góður!
Hér má til dæmis sjá dæmi um það. Morgunmaturinn í Sri Lanka!
DAGUR 2 - LIONS ROCK
Á degi tvö fórum við og skoðuðum Lions Rock en það er 200 metra hár klettur sem stendur upp úr Sri Lanka. Kóngurinn átti víst að hafa byggt höll sína ofan á honum. Þegar labbað er upp er hægt að sjá ljónsmynd úr klettinum, sem konungurinn átti að hafa gert. Nafnið á klettinum er því komið af því.
Um kvöldið borðuðum við síðan kvöldmat á stað sem bílstjórinn okkar mælti með. Við fengum súpu í forrétt, sem minnti á stafasúpu, og svo fengum við þennan stóra disk sem við deildum, hann var misvinsæll meðal okkar þar sem einn ónefndur er ekki aðdáandi fisks og hvað þá risarækju!
DAGUR 3 - Á LEIÐINNI TIL KANDY
Á leiðinni frá Sigeriy til Kandy stoppuðum við í Spice Garden. Þar var alls konar skemmtilegt, krydd, ananas, kakó og aloa vera. Við enduðum heimsóknina á kynningu á vörunum þeirra, þar sem sölumennirnir reyndu að selja okkur allt mögulegt…við féllum ekki fyrir því af því að við höfðum bara ekkert pláss fyrir neitt slíkt.
Svo auðvitað hættu þeir ekki. Sölumennirnir rifu Tómas og Óskar úr bolunum en við Hrönn fengum að halda í okkar boli! En svo byrjuðu mennirnir að nudda okkur með olíunni sem þeir voru að selja, sem við báðum bara alls ekkert um. Svo settu þeir bara höndina út og báðu um þjórfé.
Gott ráð: Passa sig á sölumönnunum. Þeir vilja yfirleitt alltaf fá þjórfé svo reynið frekar að segja nei við þá áður en þeir fara að rífa ykkur úr bolunum!
HEIMSÓKN Í TEVERKSMIÐJU
Við stoppuðum í teverksmiðju og fengum að fræðast um það hvernig te er framleitt. Ég er meiri kaffiaðdáandi en það var samt mjög gaman að fá að skoða þessa verksmiðju og svo að fá að smakka allskonar te.
DAGUR 4 - 600ft hæð
Næsta dag var ferðinni heitið upp á fjöll og var hótelið okkar í um 6000ft hæð. Það var lítið hægt að gera í því þorpi þannig að við höfðum það bara gott á hótelinu og spiluðum pool. Um kvöldið fengum við okkur vel sterkan og góðan kvöldmat og með því pöntuðum við okkur vinsælt local kókosromm sem við borguðum víst aðeins of mikið fyrir! En það var ekki beint góð hugmynd að vera að drekka hann þar sem við áttum að vakna klukkan 5 daginn eftir!
DAGUR 5 - WORLD’S END
Við vöknuðum klukkan 5 til að fara í Horton plains eða svokallað World’s End. Það var óhugsandi að vakna klukkan 5 þennan morguninn, kókosromminu að kenna. En við hörkuðum þetta af okkur með fílusvip þar sem við fengum ekki einu sinni kaffi! Þið viljið ekki kynnast þeirri Örnu…
Planið var að ganga 9km til að komast að World’s End og í hreinskilni sagt, þá vorum við bara ekki í stuði fyrir þessa göngu. Þannig að við fengum aldrei að sjá World’s End. Við tilltum okkur í grasið og umhverfið minnti okkur smá á íslenska náttúru. Eftir að hafa drepið tímann eins og við gátum þá löbbuðum við tilbaka. Um leið og bílstjórarnir sáu okkur þá sprungu þeir allir úr hlátri. Ég veit ekki afhverju, mig grunar að þeir voru búnir að veðja á milli sín hvenær við myndum koma til baka. Það var greinilega mjög áberandi að við vorum í engu stuði fyrir þetta. En það var nú bara betra fyrir þá, þeir fengu þá að fara fyrr heim úr vinnunni!
Eftir þetta fórum við á lestarstöðina til að taka lest til ELLA. Okkur var boðið að fara með bílstjóranum en okkur langaði að prófa að taka lestina. Lestarmiðinn fyrir bæði mig og Tómas kostaði litlar 200 íslenskar krónur! Enda pöntuðum við miða í 3 farrými og fengum menninguna beint í æð.
Lestin var STÚTFULL af fólki og lyktin… ó lyktin var svo hrikalega vond. Það voru menn að troða sér í gegn með mat umvafinn í fréttablaði í körfu og svo sótti hann bara matinn með puttunum og skellti í poka fyrir fólkið.
DAGUR 6 - ELLA
Þennan dag fengum við að sofa út, eða til 9:00! Eftir morgunmatinn tókum við æfingu öll saman fyrir utan og eftir það fórum við á matreiðslunámskeið. Það var eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í Sri Lanka! Ég elska mat, læra að búa til mat og borða mat.
Maturinn var líka bara með þeim betri sem ég hef á ævinni smakkað - og ég er ekkert að ýkja! En eftir þessa kennslu þá held ég nú samt að ég gæti ekki endurtekið þetta.
Dagur 7: COLOMBO
Á degi 7 heimsóttum við Udawalala þjóðgarðinn og fórum í game drive.
GÓÐ RÁÐ
Áður en ég loka Sri Lanka færslunni langaði mig að gefa ykkur nokkur góð ráð ef þið hafið áhuga á að fara til landsins
1. Borðaðu local mat. Hann er svo góður að þú trúir því ekki, svo er hann líka mjög ódýr!
2. Ég mæli með að fara á matreiðslunámskeið
3. Ef þú búin að panta bílstjóra (eins og við gerðum) sem fylgir ykkur allan tímann, þá er fínt að vera með það í huga að þú ert búin að borga fyrir hann og að hann er bara að vinna vinnuna sína. Við gáfum honum samt sem áður þjórfé í lokin.
4. Prófaðu að ferðast með lestinni.
5. Það er fínt að vera alltaf með klink á sér til að geta gefið þjórfé. Við lentum oft í þeim aðstæðum að geta ekki gefið þjórfé af því að við vorum með of stóra seðla.
6. Smakkaðu Lion bjórinn!
Næst höldum við til Balí, fylgist með!
Þar til næst!
FYLGSTU MEÐ FERÐALAGINU HENNAR ÖRNU
Á komandi vikum mun Arna deila með okkur fleiri skemmtilegum reynslusögum og myndum frá heimsreisunni hennar með KILROY. Fylgstu með á www.kilroy.is/blogg og á miðlunum hennar Örnu sem má finna hér: